Í upphafi árs voru lögð fram drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Þar er gert ráð fyrir að eigandi ökutækis muni bera hlutlæga ábyrgð á hraðasektum sem stofnast við brot sem hraðamyndavélar mynda. Ábyrgðin er takmörkuð við að ekki stofnist punktar í ökuferilsskrá ökumanns.
Uppfærð útgáfa frumvarpsdraganna var birt fyrir helgi og hefur þar verið tekið tillit til ýmissa athugasemda hagsmunaaðila. Hlutlæga ábyrgðin er ekki þar á meðal.
Sjá einnig: Bílaleigur kvíða nýjum reglum um hraðasektir

„Við teljum óeðlilegt að bílaleigur séu gerðar ábyrgar fyrir hegðun sinna kúnna og sitji uppi með kostnað sem þær hafa ekki möguleika á að innheimta,“ segir Jóhannes.
Í Fréttablaðinu í nóvember 2017 var sagt frá því að um 20-25 prósent hraðasekta hér á landi innheimtust ekki. Langstærstan hluta þess má rekja til erlendra ferðamanna. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Miðflokksmannsins Birgis Þórarinssonar kom fram að útistandandi sektir í febrúarlok þessa árs námu rúmum 633 milljónum, þar af stofnuðust rúmar 200 milljónir árið 2017. Sektir vegna umferðarbrota hækkuðu svo 1. maí.
„Það má gera ráð fyrir að talan muni hækka. Verði þetta óbreytt að lögum mun þetta hafa mjög íþyngjandi áhrif á rekstur bílaleiga,“ segir Jóhannes. „Við erum eitt dýrasta ferðamannaland í heimi vegna gengis- og launaþróunar. Bílaleigur geta ekki, ekki frekar en annar rekstur, endalaust velt hækkunum út í verðlagið. Sá tími er liðinn.“