„Samkomulag milli skipuleggjenda tónleikanna og KSÍ er trúnaðarmál,“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Solstice Production, sem stendur fyrir tónleikunum. Björn segir að tekjur af tónleikunum eigi eftir að koma í ljós í lokauppgjöri en augljóslega sé ekki farið í verkefni af þessari stærðargráðu til þess að tapa fé.
„Gangi verkefnið að óskum opnar það fjölmargar dyr fyrir frekara tónleikahald á Íslandi þar sem listamenn af svipaðri stærðargráðu gætu séð sér fært að koma fram hér á landi. Þá erum við að tala um listamenn sem hafa hingað til verið taldir ófáanlegir til tónleikahalds á Íslandi vegna smæðar markaðarins,“ segir Björn.

„Grasið á Laugardalsvelli verður verndað með sérstöku gólfi af gerðinni ArmorDeck. Þetta gólf er í nokkurri hæð frá grasinu sjálfu, leyfir því að anda og hleypir í gegn sólarljósi og regnvatni, ef því er að skipta. Það grasinu kleift að vaxa áfram á meðan á þessu tímabundna verkefni stendur og verður því vellinum skilað í fullkomnu ástandi að tónleikum loknum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar í verndun á grasi þegar kemur að tónleikahaldi og styðjast aðstandendur tónleikaferðalagsins við allra nýjustu og bestu tækni í þeim efnum.“
Upprunalega var gert ráð fyrir 18.500 tónleikagestum með fyrirvara um að hægt væri að semja um að fleiri miðar væru settir í sölu ef aðstæður byðu upp á. Fyrir síðustu helgi var ákveðið að bæta við 3.000 miðum og hefur sú sala farið hratt af stað og eru þeir miðar við það að seljast upp þegar þetta er skrifað