Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, varaði Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, við því í dag að árásum Ísrael í Sýrlandi gæti fjölgað. Hann sagði Ísrael ekki hafa skipt sér af styrjöldinni í Sýrlandi hingað til en aukin áhrif Íran þar í landi leiddu til þess að endurskoða þyrfti athafnaleysið. Sagði hann sérstaklega að Assad sjálfur væri ekki lengur ónæmur fyrir árásum.
„Hann er ekki lengur ónæmur, ríkisstjórn hans er ekki lengur ónæm. Ef hann skýtur á okkur, eins og við höfum sýnt, munum við eyða sveitum hans,“
sagði Netanyahu á fundi í London í dag.
Hann sagði að Sýrlendingar yrðu að skilja að Ísrael mundi ekki sætta sig við að íranski herinn komi sér fyrir í Sýrlandi. Þá gaf sagði Netanyahu að vera Írana í Sýrlandi skapaði ógn fyrir sveitir Assad.
Þau ummæli forsætisráðherrans um að Ísrael hafi ekki skipt sér af styrjöldinni í Sýrlandi er þó ekki rétt. Ísraelsmenn hafa reglulega gert árásir á Hezbollah og Írani í Sýrlandi. Í síðasta mánuði voru gerðar árásir á tuga skotmarka í Sýrlandi eftir að eldflaugum var skotið þaðan á Gólan hæðir.
Yfirvöld Ísrael sögðu Írani hafa gert árásirnar og gerðu þeir í kjölfarið umfangsmiklar árásir í Sýrlandi og sögðust hafa valdið verulegum skaða á innviðum Íran þar.
Sjá einnig: Ísraelar segjast hafa skemmt nærri allar herstöðvar Íran í Sýrlandi
Sagði kjarnorkusamkomulagið úr myndinni
Netanyahu er nú að ljúka þriggja daga ferðalagi um Evrópu en hann byrjaði í Berlín og fór síðan til Parísar þar sem hann ræddi við Angelu Merkel og Emmanuel Macron. Nú í dag talaði hann við Theresu May og var kjarnorkusamkomulagið við Íran til umræðu.
Merkel, Macron og May hafa reynt að halda lífi í samkomulaginu eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sleit Bandaríkin frá því og tilkynnti nýjar refsiaðgerðir gegn Íran.
Netanyahu sagði samkomulagið úr myndinni. Efnahagsstyrkur Bandaríkjanna væri nú að sjá um það.
„Þið verðið að velja hvort þið viljið eiga í viðskiptum við Íran eða Bandaríkin. Það er auðveld ákvörðun og allir eru að velja rétt.“