Á morgun er spáð suðaustan hvassviðri eða stormi með rigningu suðvestanlands, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar, en spár hafa gert ráð fyrir nýrri lægð á morgun. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að hálkublettir eru nú á Holtavörðuheiði og krapi á Laxárdalsheiði. Þá eru hálkublettir á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. Hálkublettir og éljagangur eru auk þess á Öxnadalsheiði og ófært er á Nesjavallaleið.
Snjómokstur stóð yfir á Holtavörðuheiði í morgun þegar fréttamaður Stöðvar 2 átti þar leið hjá. Afar vetrarlegt var um að litast á heiðinni en töluvert hefur snjóað í nótt.

Þá hefur lögregla á öllum landshlutum hætt að sekta fyrir nagladekk nú þegar veturinn virðist ekki enn hafa sleppt takinu af vegum landsins.
Vegagerðin vekur auk þess enn athygli á því að allri venjubundinni vetrarþjónustu er lokið og verða vegfarendur því að taka mið af því. Ekki eru til staðar öll þau tæki og mannskapur til vetrarþjónustu eins og að vetri til sem hefur áhrif á viðbragðstíma þjónustunnar.