Skoðun

Hvar áttu heima? Hvaðan kemur þú?

Amid Derayat skrifar
Íslenskt samfélag hefur breyst geysilega á seinustu áratugum. Það er mun fjölbreyttara en það hefur nokkurn tímann verið, þökk sé töluverðum fjölda innflytjenda frá ýmsum löndum. Mikill meiri hluti þessara íbúa tekur þátt í samfélaginu og leggur sitt af mörkum til hagkerfisins. Þetta fólk er að gera góða hluti. Við þurfum ekki að fara langt til að sjá útlendinga, það er nóg að líta í kringum okkur – verslanir, veitingastaðir, bensínstöðvar, nýbyggingar – það sést hvernig þeir þjóna samfélaginu og stunda oft mjög kröfuharða og erfiða vinnu eins og í byggingageiranum.

Á sama tíma eru örfáir nýbúar í stjórnmálum á Íslandi. Það er ekki lengur fyndið að hafa þennan „eina“ útlending á Alþingi eða í bæjarstjórn. Þetta er líka merki þess að aðlögun nýbúa hér gengur ekki nógu vel. Það er ekki nægur stuðningur í tungumálakennslu fyrir innflytjendur og börn þeirra og alls staðar reka nýbúar sig á þennan ósýnilega íslenskuvegg.

Atvinnuauglýsingar eru á ensku ef það er verið að auglýsa eftir starfsfólki í þrif, annars nær undantekningarlaust á íslensku. Og það gefur óbein skilaboð; þeir sem ekki tala góða íslensku eru annars flokks. Eins og fram hefur komið í tengslum við #Metoo byltinguna er þessi hópur mjög viðkvæmur fyrir hvers konar misnotkun. Það er líka hætta á að hér myndist stór hópur innflytjenda sem vinnur láglaunastörf og hefur enga möguleika á því að bæta kjör sín, fastur í fátæktargildru.

Þátttaka mín í stjórnmálum á Íslandi

Ég hef búið í meira en 20 ár á Íslandi og samt er íslenskan mín langt frá því að vera fullkomin. Ég hef samt ekki látið það aftra mér frá því að taka þátt í stjórnmálum hér og hef verið í Vinstri grænum í meira en 10 ár. Ég vil að allir fái tækifæri til menntunar og fyrir nýbúa þá tel ég að stuðningur í tungumálakennslu sé þar lykilatriði. Ég vil einnig að nýbúar taki virkan þátt og verði sýnilegri í stjórnmálum á Íslandi, alveg óháð tungumálakunnáttu sinni, litarhætti og uppruna. Og ég vil hvetja þá til að taka þátt í bæjarstjórnarkosningunum og styðja VG. Stefna VG í málum útlendinga er sanngjörn, hvetur til meiri menntunar og velferðar, ásamt stórbættu upplýsingastreymi og leggur mikla áherslu á menntun fyrir börn nýbúa.

Saman getum við mótað samfélag sem styður við fólk hvaðan sem það kemur. Samfélag sem fagnar fjölbreytileikanum.

Höfundur skipar 2. sæti Vinstri grænna í Kópavogi 




Skoðun

Sjá meira


×