Nú er búið að gefa út hvaða leikmenn koma til greina í kjörinu á leikmönnum ársins í NBA-deildinni. LeBron James, James Harden og Anthony Davis eru tilnefndir sem leikmaður ársins.
James missti ekki af leik með Cleveland í vetur og var með 27,5 stig, 8,6 fráköst og 9,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.
Harden var sjóðheitur með Rockets sem var með besta árangur allra liða í deildinni. Hann var stigakóngur deildarinnar með 30,4 stig að meðaltali í leik og gaf þess utan 8,8 stoðsendingar.
Davis fór langt með liði New Orleans og var næststigahæstur í deildinni með 28,1 stig að meðaltali í leik. Hann var fimmti í frákastabaráttunni með 11,1 frákast að meðaltali í leik. Hann varði svo flest skot allra eða 2,6 skot að meðaltali í leik.
Þrír flottir berjast um útnefninguna nýliði ársins. Það eru þeir Ben Simmons hjá Philadelphia, Donovan Mitchell hjá Utah og Jayson Tatum, leikmaður Boston.
Það eru 100 íþróttafréttamenn sem kjósa í þessu vali en kosið er um fleiri flokka sem má sjá hér að neðan.
Varnarmaður ársins: Davis (Pelicans), Joel Embiid (76ers), Rudy Gobert (Jazz)
Þjálfari ársins: Dwane Casey (Toronto Raptors), Quin Snyder (Jazz), Brad Stevens (Celtics)
Mestu framfarir: Clint Capela (Rockets), Spencer Dinwiddie (Brooklyn Nets), Victor Oladipo (Indiana Pacers)
Sjötti maður ársins: Eric Gordon (Rockets), Lou Williams (LA Clippers), Fred VanVleet (Raptors)
