Farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um rúmlega sjö prósent á milli ára í apríl mánuði samkvæmt upplýsingum frá Stjórnstöð ferðamála. Tölurnar voru birtar á vefsíðu stjórnstöðvarinnar í dag. Um er að ræða í fyrsta skipti sem lækkun verður á milli ára sé horft aftur til ársbyrjunar 2013.
Stöðug fjölgun hefur verið í farþegum um flugvöllin á milli ára undanfarin ár. 216 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í apríl í fyrra. Hafði þeim fjölgað úr 134 þúsund árið á undan. Farþegarnir voru 200 þúsund í ár sem svarar til fækkunar um 16 þúsund farþega milli ára eða um 7,4%.
Erlendir farþegar í Keflavík í apríl 2018 voru tæplega 148 þúsund sem svarar til um 4% fækkunar á milli ára. Íslendingar voru tæplega 53 þúsund sem svarar til um 15% fækkunar frá því sem var í fyrra.
Ef litið er til fjölda koma farþegar fyrstu fjóru mánuði ársins þá hafa þær verið 817 þúsund í ár miðað við 782 þúsund í fyrra. Það svarar til rúmlega 4% fjölgunar. Fjölgun á sama ársþriðjungi á milli ára í fyrra var 48% frá árinu 2016.
Með farþegum um Keflavíkurflugvöll er átt við alla þá sem hafa viðkomu á flugvellinum óháð því hvort þeir staldri við á Íslandi eða ekki.
Athugasemd ritstjórnar
Föstudaginn 2. maí birtist frétt á Vísi þess efnis að fækkunin hefði numið 22% á milli ára. Var miðað við upplýsingar á vef Stjórnstöðvar ferðamála. Í ljós kom að fimm daga vantaði í tölurnar fyrir aprílmánuð. Fréttin var í loftinu í hálfa klukkustund en var fjarlægð á meðan staðfestra talna var beðið.
Söguleg fækkun farþega í apríl um Keflavíkurflugvöll
