Innlent

Bætir í vind og éljagang í kvöld

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það er éljagangur í kortunum.
Það er éljagangur í kortunum. Vísir/Hanna
Gert er ráð fyrir að rofa muni til á Norðurlandi eftir því sem líður á daginn en sunnantil mun bæta í vind og éljagang með kvöldinu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þá má búast við austlægri átt, víða 5-10 m/s og dálítlum éljum en lengst af þurru veðri vestantil. Rofa mun til norðanlands með deginum en bæta heldur í vind og éljagang sunnantil á landinu í kvöld og um landið vestanvert í nótt. Veðrið sem leikið hefur við íbúa höfuðborgarsvæðisins um páskahelgina mun því að öllum líkindum víkja fyrir ofankomu.

Hiti verður 0 til 5 stig í dag en um og undir frostmarki fyrir norðan. Búast má við næturfrosti og líkur eru á talsverðu frosti í innsveitum norðan- og austanlands.

Á morgun, páskadag, verður hæg breytileg átt og léttskýjað austanlands en suðlæg átt 8-13 m/s og él vestast á landinu. Él verða víða um norðanvert landið annað kvöld en rofar til syðra. En aftur austlæg átt á mánudag með dálítilum éljum víða um land, einkum sunnanlands.

Samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar, sem uppfærð var klukkan 07:01 í morgun, eru vegir greiðfærir víðast hvar á landinu. Þó er varað við hálku á Hellisheiði,  Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Þá eru hálkublettir víða á Norðurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag (annar í páskum):


Norðaustlæg átt, 8-13 m/s og dálítil snjókoma eða él í flestum landshlutum, einkum S-lands. Frostlaust syðst að deginum, en frost annars 2 til 7 stig.

Á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Ákveðnar norðlæg áttir með snjókomu eða éljagangi á N-verðu landinu, en bjartviðri sunna heiða. Talsvert frost á öllu landinu, en sums staðar frostlaust syðst að deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×