Innlent

Spá stormi suðaustanlands og undir Eyjafjöllum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland og Suðausturland frá því snemma í fyrramálið og fram undir kvöld.
Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland og Suðausturland frá því snemma í fyrramálið og fram undir kvöld. Vísir/Ernir
Spáð er stormi suðaustanlands og undir Eyjafjöllum á morgun og fram undir kvöld.  Gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland og Suðausturland frá því snemma í fyrramálið þangað til seinnipartinn á morgun.  Á Suðurlandi er spáð austan og norðaustan 20-25 m/s undir Eyjafjöllum og sunnan Mýrdalsjökuls og mjög snarpar vindhviður. Á Suðausturlandi er spáð norðaustan 20-25 m/s, vindhviður yfir 40 m/s við Öræfajökul.

Slæmt ferðaveður er á öllu þessu svæði samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Mun rólegra veður á fimmtudaginn samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings núna í kvöld.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Austan 8-13, en 13-18 syðst. Él A-lands, annars úrkomulítið. Austan og norðaustan 13-20 á morgun, en 20-25 á Suðausturlandi og einnig syðst á landinu. Rigning eða slydda um landið austanvert og snjókoma til fjalla, en þurrt að kalla vestantil. Lægir mikið annað kvöld. Hiti 1 til 8 stig að deginum, hlýjast suðvestanlands.



Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag (skírdagur):

Austlæg eða breytileg átt 3-10. Slydda eða rigning SA-til, einkum fyrripartinn, en þurrt annars staðar og víða bjart veður. Hiti 1 til 7 stig að deginum.

Á föstudag (föstudagurinn langi):

Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s. Dálitlar skúrir eða él í flestum landshlutum. Hiti 0 til 5 stig.

Á laugardag:

Austan- og norðaustanátt með éljum, en úrkomulítið á N- og V-landi. Frost 0 til 5 stig, en hiti 0 til 5 stig S- og SV-lands.

Á sunnudag (páskadagur):

Austlæg átt og allvíða snjókoma um tíma. Hiti breytist lítið.

Á mánudag (annar í páskum) og þriðjudag:

Útlit fyrir norðaustan- og austanátt og él, en bjartviðri S- og V-lands. Frost um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×