Yfirvöld í Suður-Kóreu segja að þeim hafi ekki borist nein svör frá yfirvöldum í Norður-Kóreu vegna fyrirhugaðs funds leiðtoga ríkisins, Kim Jong-un, með forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.
Talsmaður suður-kóreskra yfirvalda segir að ekkert opinbert svar hafi borist frá Norður-Kóreu vegna fundarins en kveðst telja að yfirvöld þar í landi vilji nálgast málið af varfærni og taka sér tíma til þess að ákveða næstu skref.
Það kom flestum í opna skjöldu þegar fréttir bárust af því síðastliðinn fimmtudag að Trump hefði samþykkt boð Kim Jong-un um leiðtogafund. Boðið barst til Trump frá Kim í gegnum embættismenn frá Suður-Kóreu sem segja leiðtoga Norður-Kóreu reiðubúinn til að losa sig við kjarnavopn sín.
Sérfræðingar eru þó fullir efasemda varðandi það hvað gæti komið út úr slíkum viðræðum þar sem afar flókin málefni eru undir.
Ef að fundinum verður yrði hann sögulegur þar sem leiðtogar Norður-Kóreu og Bandaríkjanna hafa aldrei hist.
Ýmislegt er hins vegar enn óljóst varðandi fundinn, til að mynda hvar hann gæti farið fram og nákvæmlega hvenær þó gefið hafi verið upp að stefnt sé að því að halda hann fyrir lok maí.
Engin svör borist frá Norður-Kóreu vegna fundarins með Trump

Tengdar fréttir

Þvingunum ekki hætt fyrir fundinn með Kim
Væntanlegur fundur Kim Jong-un og Donalds Trump ekki tilefni til að slaka á þvingunaraðgerðum. Kim-stjórnin þarf hins vegar að hætta tilraunum í aðdraganda fundar. Demókratar efins um ágæti þess að funda með Kim.

Trump telur að Kim Jong-un sé full alvara
Donald Trump hefur samþykkt að hitta Kimg Jong-un á fundi sem fyrirhugaður er í næsta mánuði.

Trump segir möguleika á „stórkostlegum“ samningi fyrir heiminn
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna segir að fyrirhugaður fundur hans með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, geti annaðhvort skilað engum árangri eða skapað "stórkostlegan samning fyrir heiminn.“