Hinn umdeildi eigandi NBA-liðsins Dallas Mavericks, Mark Cuban, hefur viðurkennt að hafa beðið leikmenn liðsins um að tapa þar sem það sé best fyrir félagið.
„Ég á líklega ekki að segja frá þessu en ég fór í mat með nokkrum leikmönnum liðsins um daginn. Við erum ekki að keppa um sæti í úrslitakeppninni og ég sagði við þá að það besta sem gæti komið fyrir liðið núna væri að tapa sem flestum leikjum. Yfirmaður NBA-deildarinnar verður ekki ánægður að heyra þetta,“ sagði Cuban.
„Ég útskýrði fyrir strákunum hvaða áætlanir ég hef í sumar og að stefnan væri að koma liðinu aftur upp. Það er komið nóg af öllum þessum tapleikjum sem hafa tekið á mig. Ég vildi koma hreint fram með þetta.“
Dallas er með þriðja lélegasta árangurinn í deildinni það sem af er tímabilinu og verri staða þýðir betri möguleikar í næsta nýliðavali.
