Innlent

Einum sleppt úr haldi vegna umfangsmikils fíkniefnamáls

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn hafði verið í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði.
Maðurinn hafði verið í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði. Vísir/GVA
Landsréttur felldi í dag úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um aðild að fíkniefnainnflutningi til landsins. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Greint var fyrst frá þessu á vef Fréttablaðsins.

Alls hafa fjórir menn setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við þetta mál. Tveimur var sleppt þegar nokkuð var liðið á rannsóknina og sátu því tveir í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Nú hefur öðrum þeirra verið sleppt og situr því einn núna í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Annar þeirra tveggja sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna málsins er Sigurður Kristinsson, eiginmaður Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur sem er í ótímabundnu farbanni á Spáni vegna málsins. Sunna liggur þar mikið slösuð á sjúkrahúsi.

Sigurður var handtekinn við heimkomuna frá Málaga í lok janúar og var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. 7. febrúar síðastliðinn var hann úrskurðaður í fjögurra vikna langt gæsluvarðhald vegna málsins.

Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Var þá sagt frá því að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði farið í aðgerðir í húsnæði Skáksambands Íslands en fíkniefnin komu til landsins í stórum skákmunum. Starfsmenn Skáksambandsins eru þó ekki taldir tengjast málinu.

Sigurður var handtekinn á Spáni um miðjan janúar vegna gruns um alvarlegt ofbeldisbrot gagnvart konu sinni. Honum var sleppt úr haldi þar ytra að loknum yfirheyrslum og svo handtekinn við komuna hingað til lands.

Lögreglan hér á landi hefur verið í viðræðum við lögregluyfirvöld á Spáni um að taka yfir rannsókn málsins, eða þeim hluta sem snýr að Íslandi.

Verði það að veruleika er möguleiki á að flytja Sunnu heim til Íslands.

Síðastliðinn miðvikudag sagði lögreglan frá því að spænsk yfirvöld hefðu enn ekki svarað formlegri réttarbeiðni dómsmálaráðuneytisins hér á landi þess efni að lögreglan á Íslandi taki yfir rannsókn á máli Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur. Sagði lögreglan að óvíst sé hversu langan tíma slík afgreiðsla kunni að taka.


Tengdar fréttir

Sunna komin til Sevilla

Sunna Elvira Þorkelsdóttir sem hefur legið lömuð á spítala í Malaga síðastliðinn mánuð er komin á spítala í Sevilla. Mögulegur flutningur til Íslands er þó enn í biðstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×