Eins og flestum er kunnugt um var Guðmundur Þórður Guðmundsson ráðinn landsliðsþjálfari fyrr í dag, en þetta er í þriðja sinn sem Guðmundur stýrir landsliðinu. Einnig var greint frá því að Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, hafði ekki náð á Geir.
Geir stýrði liðinu á Evrópumótinu sem er nýyfirstaðið og hefur stýrt liðinu í tvö ár, en Arnar Sveinn segir á Twitter-síðu sinni að faðir hans hafi óskað eftir því að fá upplýsingar á sunnudag vegna þess að hann hafi verið á leið í frí. Það hafi fyrst verið hringt í hann seint í gærkvöldi.
Þar segir hann einnig að einhverjir úr þjálfarateyminu hafi lesið um framtíð sína í fjölmiðlum og símtölin frá formanni HSÍ hafi sennilega verið fleiri en hann hafi fengið frá formanninum síðustu tvö ár.
Hér að neðan má sjá tíst Arnars.
Pabbi óskaði eftir því við HSÍ að fá svar í síðasta lagi á sunnudag þar sem hann væri að fara í frí og gæti illa tekið símann eftir það. Fyrsta símtalið fær hann svo seint í gærkvöldi, og nokkur eftir það - sennilega fleiri símtöl en hann hefur fengið frá formanninum þessi 2 ár. https://t.co/HKVmubMIJr
— Arnar Sveinn (@arnarsveinn) February 6, 2018
Mátti ekki láta hann vita miklu fyrr í ljósi þess að þetta var löngu ákveðið? Fyrir utan það - mætti ekki láta allt þjálfarateymið vita svo að þeir allir þyrftu ekki að lesa um framtíð sína í fjölmiðlum?
— Arnar Sveinn (@arnarsveinn) February 6, 2018