Bandaríska Ólympíunefndin vill að allir stjórnarmeðlimir bandaríska fimleikasambandsins segi af sér, samkvæmt heimildum fjölmiðla vestanhafs.
Formaður nefndarinnar, Scott Blackmun, segir að fimleikasambandið muni tapa allri virðingu innan íþróttahreyfingarinnar nema stjórnin segi af sér. Hann segi að krafan þýði ekki að hann telji stjórnarmeðlimi hafa vitað af misnotkun læknis sambandsins, Larry Nassar, á fimleikastúlkum í mörg ár, heldur þurfi sambandið einfaldlega á algjörri endurnýjun að halda eftir þetta mál.
Nassar var í vikunni dæmdur í allt að 175 ára fangelsisvist vegna misnotkunnar á fjölda fimleikastjarna sem voru í meðferðum hjá honum, þar á meðal margfaldra Ólympíumeistara.
Fyrr í vikunni höfðu þrír stjórnarmeðlimir sambandsins sagt af sér, en til viðbótar við þá eru 18 aðrir sem sitja í stjórn sambandsins og Blackmun vill að þeir verði allir búnir að segja af sér fyrir næsta miðvikudag.
„Við þurfum að bregðast við og taka í taumana. Við þurfum að hjálpa fimleikasambandinu til þess að byggja upp nýja menningu innan sambandsins sem verndar og styður við íþróttamennina,“ sagði Blackmun.
Þá gerir Ólympínefndin kröfu um að rannsókn verði gerð á því hvort einhver hafi vitað af athæfum Nassar, eða átt að vita af þeim.
Krefjast afsagnar stjórnar fimleikasambandsins

Tengdar fréttir

Nassar dæmdur í 175 ára fangelsi
Larry Nassar, fyrrum læknir bandaríska fimleikasambandsins, var í dag dæmdur til 175 ára fangelsisvistar fyrir kynferðislegt ofbeldi og misnotkun á fjölda stúlkna.

Toppar bandaríska fimleikasambandsins segja af sér
Bandaríska fimleikasambandið hefur fengið á sig mikla gagnrýni vegna þess að læknir bandaríska fimleikalandsliðsins komst upp með að misnota fjölda fimleikastúlkna í tvo áratugi.