Gervinhnattamyndir sýna umtalsverðan námugröft við Punggye-ri, þar sem Norður-Kórea hefur sex sinnum sprengt kjarnorkuvopn, nú síðast í september. Það er til marks um að mögulega sé verið að undirbúa nýja tilraunasprengingu undir fjallinu Mantap sem er í norðausturhluta landsins.
Stofnunin 38 North, sem fylgist grannt með málefnum Norður-Kóreu, segir gervihnattamyndir sýna umtalsverða virkni við fjallið. Þar sjáist einnig búnaður og að verið sé að grafa mikið þar. Kjarnorkusprengjurnar hafa iðulega verið fluttar á um tveggja kílómetra dýpi í gegnum göng.
Á síðasta ári óttuðust sérfræðingar að fjallið gæti mögulega fallið saman við aðra sprengingu og þannig gætu geislavirk efni lekið út í umhverfið. Jarðfræðingar frá Kína hafa til dæmis varað yfirvöld Norður-Kóreu við því að sprengja aðra kjarnorkusprengju undir Mantap.
Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu hefur það eftir rússneskum sérfræðingi sem heimsótti Norður-Kóreu í nóvember að embættismenn þar í landi óttist stríð við Bandaríkin. Þeir taki þeim möguleika að stríð muni skella á mjög alvarlega og telji Bandaríkin vera að undirbúa skyndiárás.
Embættismenn sem Alexander Vorontsov ræddi við sögðu hermenn Norður-Kóreu sofi í stígvélunum og þannig séu þeir ávalt reiðubúnir.
