Þú ert með rosalega mörg flúr, á alveg að klára líkamann?
„Ég er, eins og sumir hafa kannski séð, með nokkur húðflúr á líkamanum. Þetta byrjaði smátt og ég ætlaði aldrei að vera neitt rosalega flúraður. En svona er þetta, maður byrjar að fá sér eitt og svo annað… En síðan var ég kominn með svo mikið af bull-flúrum út um allt að ég hugsaði bara: Það er annaðhvort að fara í mjög margar leiseraðgerðir eða klára líkamann. Þannig að nú er ég bara „on a mission“ að verða alflúraður.
Fyrst þegar maður er að fá sér flúr er maður pínu bara: Ég ætla að fá mér þetta því að þetta þýðir þetta fyrir mér,“ segir Gauti með leikrænum tilburðum, „en ég er alveg á því að tattú þurfi ekkert að þýða eitthvað, en það er oft skemmtilegra að segja frá því þannig. Ég er til dæmis með eitt bein á handleggnum og fólk spyr mig oft af hverju, og ég bara veit það ekki – ég sá það bara í möppu. Það er ekki nógu kúl að segja bara: Ég var á Strikinu, búinn með fjóra bjóra og fór og fékk mér bein. Þannig að maður þarf að búa til sögu,“ segir Gauti spurður út í hvort flúrin hans hafi mikla persónulega þýðingu.

„Ég var að velja tattúið með Chip á Reykjavík Ink og hann er sko alinn upp í bílskúr eða eitthvað. Pabbi hans var drag race bílstjóri – þannig að Chip veit rosa mikið um bíla. Og hann spurði mig hvernig bíla ég vildi og ég svaraði: Bláan?… og rauðan! Þá var hann alveg: Nei, HVERNIG bíla? og ég sagðist allavegana ekki vilja þessa sem voru í myndbandinu.“
Í myndbandinu sjást Gauti og Herra Hnetusmjör keyra um í bláum Subaru Impreza og rauðri Toyota Celica en margir „brjálaðir bílakarlar“ hafa nálgast Gauta eftir að myndbandið kom út og hreytt því í hann að Toyota Celica sé víst ekkert sérstaklega fínn bíll.
„Þeir ganga að því vísu að Emmsjé Gauti hafi verið að spá þvílíkt mikið í þessum bílum. Ég fór auðvitað bara inn á einhverja bílagrúppu á Facebook þar sem ég sagði: Hei, hver vill lána mér bílinn sinn? Og við enduðum bara með þessa bíla. Ég tek það samt fram að mér finnst þeir mjög flottir.“
Gauti endaði með einn Cadillac og einhvers konar annan bíl, sem hann veit ekki alveg hverrar tegundar er, í flúrinu. Hann vissi að hann vildi Cadillac-blæjubíl, því að vesturstrandarrapparar keyra gjarnan um í slíkum tryllitækjum.
Aðspurður hvort hann ætli að láta flúra sig með myndum sem tengjast fleiri lögum segist Gauti mjög líklega fá sér fleiri flúr tengd tónlist sinni, eða jafnvel bara einhverjum öðrum merkum áföngum.
„Mér finnst mjög gaman að tala við þig í síma þannig að kannski fæ ég mér bara Fréttablaðs-lógó yfir ennið til að minna mig á hvað það var gaman í þessu viðtali.“