Skoðun

Öll í strætó

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar
Það gleður mig mjög að nú á nýju ári skuli Strætó BS taka mörg mikilvæg skref að bættri þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ég er meðal annars að tala um lengri þjónustutíma, næturstrætó, enga sumar­áætlun, aukna tíðni og aðgengi fleira fólks að þjónustunni. Við þurfum öflugt almenningssamgöngukerfi til að ekki verði gengið á umhverfisgæði íbúa á höfuðborgarsvæðinu þótt íbúum fjölgi og mikilvægur þáttur í því er að koma í veg fyrir að bílum fjölgi í sama hlutfalli. Fyrirhuguð Borgarlína gegnir þar lykilhlutverki en henni er ætlað að tengja kjarna allra sveitarfélaganna saman með samgöngu- og þróunarásum. Strætó mun þó áfram gegna veigamiklu hlutverki til að almenningssamgöngur verði raunhæfur kostur.

Framtíðarsýn Strætó er að viðskiptavinir okkar kjósi að komast leiðar sinnar með Strætó vegna þess að það sé mun hagkvæmari, umhverfisvænni og jafnvel fljótlegri kostur en að nota einkabíl. Sem skref í átt að þessari framtíðarsýn aukum við þjónustu Strætó og innleiðum breytingar á leiðakerfi, lengjum þjónustutímann og aukum tíðni um leið og við stækkum þjónustusvæði Strætó.

Leið 6 mun aka að Egilshöll í Grafarvogi á 10 mínútna tíðni á annatímum eins og leið 1 hefur nú gert í rúmt ár með góðum árangri. Þjónustutími verður lengdur til klukkan 1 eftir miðnætti á leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 11, 12, 15 og 18 og í akstursþjónustu fatlaðra. Næturakstur hefst til reynslu í eitt ár þannig að sex leiðir verða eknar á um klukkutíma fresti frá klukkan 01.00 til 04.30 úr miðbæ Reykjavíkur aðfaranætur laugar- og sunnudaga. Við munum fylgjast með notkun og árangri þessara breytinga enda er meginhlutverk Strætó BS að nýta það fé sem sveitarfélög og ríki fjárfesta í þjónustunni sem allra best til að koma til móts við óskir og væntingar viðskiptavina.

Örar breytingar á þjónustu almenningssamgangna eru ekki ákjósanlegar og það gleður okkur því að geta tilkynnt að 2018 verður engin sérstök þjónustuskerðing yfir sumartímann eins og síðastliðin ár. Það er von mín að þessar breytingar geri fleiri íbúum kleift að koma með í Strætó, það er upplagt áramótaheit.

 

Höfundur er stjórnarformaður Strætó,  varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×