Þrír eru nú í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um líkamsárás, skemmdarverk, hótanir og vopnalagabrot. Allir voru þeir handteknir skömmu eftir miðnætti í nótt á Fiskislóð í Reykjavík og gista fangageymslur þangað til þeir verða yfirheyrðir. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þá var einn maður handtekinn í Hamraborg um klukkan 2:30 vegna skemmdarverka og fíkniefnalagabrots. Hann gistir fangageymslu.
Um 3:30 var ökumaður stöðvaður í Jafnaseli vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn reyndist einnig aka stolnum bíl og gistir nú fangageymslu. Sjö ökumenn voru stöðvaðir til viðbótar í gærkvöldi og –nótt vegna gruns um ölvunar- eða fíkniefnaaksturs.
Laust eftir þrjú í nótt var tilkynnt um stúlku sem datt í Tryggvagötu. Hún var sögð illa áttuð en við eftirgrennslan lögreglu reyndist atvikið minniháttar.
Þá barst lögreglu eitthvað af tilkynningum um minniháttar líkamsárásir í miðbænum í nótt. Öll leystust verkefnin á vettvangi.
Handteknir vegna líkamsárásar, hótana og vopnalagabrota
Kristín Ólafsdóttir skrifar
