Aldís stefndi ríkinu vegna ákvörðunar Sigríðar Bjarkar um að færa sig tímabundið til starfi í janúar í fyrra. Tilfærsluna taldi Aldís jafngilda ólögmætri brottvikningu. Sakaði hún lögreglustjóra jafnframt um að hafa lagt sig í einelti með ýmsum hætti.
Héraðsdómur sýknaði ríkið af kröfum Aldísar í gær og taldi að lögreglustjóri hefði haft heimild til að breyta starfsskyldum hennar. Breytingin hefði verið tímabundin og ekki of íþyngjandi fyrir Aldísi. Þannig hafi hún til dæmis ekki lækkað í launum. Ákvörðun lögreglustjóra hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum.
Klofningur og órói innan fíkniefnadeildar
Tilfærsla Aldísar í starfi kom í kjölfar spennu í samskiptum hennar við lögreglustjóra. Hún virðist meðal annars hafa orsakast af hatrömmum deilum og klofningi innan fíkniefnadeildarinnar sem hafði verið til staðar áður en Aldís tók við henni.
Þannig var lögreglufulltrúi sem var náinn samstarfsmaður Aldísar rannsakaður vegna meintrar spillingar á tímabili. Vísaði lögreglustjóri meðal annars til þess þegar ákvörðunin var tekin um að breyta starfsskyldum Aldísar.

Héraðsdómur dæmdi lögreglufulltrúanum rúmar tvær milljónir króna í skaðabætur í haust vegna ákvörðunar Sigríðar Bjarkar að leysa hann frá störfum á meðan rannsókn á honum stóð yfir. Í þeim dómi kom fram að rannsóknin á honum hafi frá upphafi byggst á órökstuddum ásökunum sem hafi virst eiga upptök sín í innanhússdeilum fíkniefnadeildarinnar.
Óróinn innan fíkniefnadeildarinnar og kvartanir nokkurra starfsmanna hennar voru einnig á meðal þess sem Sigríður Björk notaði til að rökstyðja að færa Aldísi tímabundið til í starfi.
Gagnrýnd fyrir að lesa upp úr tölvupósti Aldísar
Í stefnu Aldísar var því einnig haldið fram að Sigríður Björk hefði lagt hana í einelti og valdið henni vanlíðan á vinnustaðnum. Vísaði hún meðal annars til þess að lögreglustjóri hefði dregið að skipa sig í starf yfirlögregluþjóns, reynt að koma sér úr starfi með að bjóða starfskrafta hennar sérstökum saksóknara án þess að bera það undir hana, lesið upp úr tölvupóstum hennar fyrir framan aðra starfsmenn og vikið henni úr nefnd sem átti að velja inn nýja lögreglufulltrúa.
Þeim rökum hafnaði Héraðsdómur. Í dómnum kemur þó fram nokkur gagnrýni á hvernig Sigríður Björk hagaði samskiptum sínum við Aldísi. Héraðsdómur taldi ljóst að ekki hafi ríkt nægilegt traust á milli þeirra tveggja og því hafi skapast spenna í samskiptum þeirra.
„Að einhverju leyti þykir mega rekja þá misbresti til þess að lögreglustjóri hafi ekki í öllu tilliti gætt nægilega góðra stjórnunarhátta í þeim samskiptum, og þá einkum með því að upplýsa stefnanda ekki fyrir fram um efni fundar sem hún boðaði hana á 15. desember 2015 og lesa upphátt úr tölvupósti stefnanda í votta viðurvist,“ segir í dómnum.