Stephen Curry hafði verið í basli með skotin sín utan þriggja stiga línunnar í leiknum en setti niður tvö slík í upphafi framlenginarinnar. Það gaf tóninn og Golden State fagnaði sigri. Curry hafði aðeins hitt úr einu af sjö þriggja stiga skotum sínum fram að því en hann skoraði alls þrettán af átján stigum liðsins síns í framlengingunni.
Kevin Durant skoraði 29 stig fyrir Golden State en Curry var með 28 og Klay Thompson 20.
Hjá Lakers var Brandon Ingram stigahæstur með 32 stig en liðið var nálægt því að tryggja sér sigur í lok fjórða leikhluta. Ingram fékk opið skot á lokasekúndunum en það geigaði.
Houston vann Indiana, 118-98, og þar með sinn sjötta sigur í röð. James Harden átti stórleik en hann var með 29 stig, tíu stoðsendingar og átta fráköst. Houston vann alls tólf af þrettán leikjum sínum í nóvember.
Orlando vann Oklahoma City, 121-108. Aaron Gordon skoraði 40 stig og tók fimmtán fráköst þar að auki fyrir Orlando sem hafði tapað níu leikjum í röð. Vandræði Oklahoma City halda áfram en þetta var fimmta tap liðsins í síðustu sex leikjum þess. Russell Westbrook skoraði 37 stig, þar af 20 í fjórða leikhluta.
Úrslit næturinnar:
Detroit - Phoenix 131-107
Orlando - Oklahoma City 121-108
Philadelphia - Washington 118-113
New York - Miami 115-86
Toronto - Charlotte 126-113
Houston - Indiana 118-97
New Orleans - Minnesota 102-120
Dallas - Brooklyn 104-109
San Antonio - Memphis 104-95
LA Lakers - Golden State 123-127