Hermaður frá Norður-Kóreu var skotinn við það að flýja til Suður-Kóreu. Það gerði hann með því að hlaupa yfir sameiginlegt öryggissvæði á landamærunum þar sem hermenn beggja ríkjanna standa andspænis hvorum öðrum sitt hvoru megin við landamærin með einungis nokkra metra á milli þeirra. Þetta er í þriðja sinn sem einhver flýr yfir landamærin á þessum stað frá því að vopnahlé var gert í stríði ríkjanna árið 1953.
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar, stóð hermaðurinn vörð við landamærin áður en hann hljóp af stað. Hermenn Suður-Kóreu heyrðu skothvelli og fundu hermanninn, sunnan megin við landamærin, og hafði hann verið skotinn í öxlina og í aðra hendina. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Embættismenn í Suður-Kóreu segja að hermenn þeirra hafi ekki skotið á hermenn Norður-Kóreu.
Hermaðurinn var óvopnaður og klæddur í hermannabúning en ekki liggur fyrir hver hann er né af hverju hann flúði, samkvæmt Yonhap fréttaveitunni frá Suður-Kóreu. Einnig er ekki vitað hve alvarleg meiðsl hans eru.
Tæknilega enn í stríði
Ríkin tvö eru tæknilega enn í stríði þar sem samið var um vopnahlé en ekki frið árið 1953. Þá hafði Kóreustríðið staðið yfir í þrjú ár. Frá þeim tíma hafa um 30 þúsund manns frá Norður-Kóreu flúið til Suður-Kóreu en langflestir þeirra fara í gegnum Kína en ekki landamærin.
Samkvæmt fjölmiðlum ytra er þetta einungis í þriðja sinn sem einhver flýr yfir sameiginlega öryggissvæðið í Panmunjom. Þeir hermenn sem valdir eru til að standa vörð við landamærin eru yfirleitt taldir vera verulega hliðhollir einræðisstjórn Norður-Kóreu.
Panmunjom var eitt sinn lítið landbúnaðarþorp en það er nú inn á miðju landamærasvæði ríkjanna. Það svæði kallast yfirleitt á ensku Demilitarized Zone eða DMZ og er um fjögurra kílómetra breitt. Það er þakið jarðsprengjum, gaddavírum og varðstöðvum. Skrifað var undir vopnahléið þar árið 1953.
Skotinn af félögum sínum þegar hann hljóp yfir landamærin
Samúel Karl Ólason skrifar
