Búnaðarskólinn sem hjónin Torfi Bjarnason og Guðlaug Zakaríasdóttir stofnuðu í Ólafsdal árið 1880 og ráku til ársins 1907 er talinn hafa markað upphaf búháttabyltingar til sveita. Gamla skólahúsið þótti með veglegustu byggingum landsins, og stendur enn í dag uppi sem minnisvarði um þetta merka brautryðjendastarf.

„Þegar allt er talið þá voru svona 13-14 byggingar í Ólafsdal,” segir Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins.
Þrjúhundruð manna áhugahópur um verndun menningarminjanna stendur að Ólafsdalsfélaginu en það hefur nú samið við Minjavernd um verkefnið.
„Minjavernd mun núna byggja upp öll húsin sem hér eru á næstu 3-4 árum. Og þeir hyggjast leggja í þetta allt að hálfan milljarð, gæti ég trúað, að byggja upp Ólafsdalinn.”

„Þegar þetta verður allt risið mun þetta skaffa töluvert mörg störf. Ég gæti vel trúað að þetta yrðu tíu til fimmtán störf. Þannig að þetta mun hafa töluverð áhrif. Og ég er sannfærður um það, þegar þetta verður allt gengið í gegn, að þá mun Ólafsdalur verða einn fjölsóttasti ferðamannastaður við Breiðafjörð,” segir formaður Ólafsdalsfélagsins.
Í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 næstkomandi mánudagskvöld verður farið um söguslóðir Dalasýslu í fylgd Svavars Gestssonar, fyrrverandi ráðherra, sem sér tækifæri til að treysta byggðina með því að búa til „gullna söguhringinn”.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: