Innlent

Meirihluta foreldra ráðlagt að gefa börnum geð- og svefnlyf

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í rannsókn meistaranema í sálfræði við Háskólann í Reykjavík um lyfjagjöf til barna með sérþarfir var haft samband við foreldra barna með hegðunarvanda og þroskahamlanir og spurt hvaða ráð foreldrar fái vegna hegðunar og svefnvanda.

58% foreldra var ráðlögð lyfjagjöf við svefnvandanum og rúmlega 70% foreldra barna með hegðunarvanda var ráðlagt að gefa þeim geðlyf.

Berglind Sveinbjörnsdóttir, atferlisfræðingur sem stýrði rannsókninni, segir niðurstöðurnar benda til úrræðaleysis á Íslandi.

„Það eru til aðrar aðferðir sem virðast ekki vera í boði á Íslandi," segir hún og að markvisst þurfi að bjóða foreldrum aðstoð.

„Strax þegar börn eru greind ætti að bjóða foreldrum upp á aðferðir til að takast á við svefnvanda enda þekkt að svefnvandamál fylgir ýmsum greiningum, svo sem einhverfu."

Börnum allt niður í eins árs var ávísað svefnlyf sem inniheldur melatónin.

„Nýleg rannsókn hefur sýnt að þetta hafi áhrif á hormónabúsakp hjá börnum og ætti ekki að ávísa á börn heldur er lyfið fyrir 55 ára og eldri.“

Í yfirlýsingu frá Embætti landlæknis segir að bregðast þurfi við fjölda lyfjaávísana til barna hér á landi en Íslendingar eigi norðurlandamet í slíku.

Í yfirlýsingunni stendur: „Það að skortur sé á úrræðum er eitt en ef verið er að beina foreldrum barna með hegðunarvanda í lyfjagjöf sem eina úrræði og jafnvel lyf sem ekki eru ætluð börnum er ekki ásættanlegt.“


Tengdar fréttir

Braskað með svefnlyf fyrir börn á netinu

Sprenging orðið í bæði ávísunum lækna á svefnlyfinu melatónín til barna sem og ólöglegum póstsendingum frá Bandaríkjunum sem haldlagðar hafa verið af tollvörðum. Landlæknisembættið hefur áhyggjur af þróuninni.

Ávísunum á Melatónín hefur fjölgað um 134 prósent

Ávísunum á svefnlyfið Melatónín hefur fjölgað um 134 prósent frá árinu 2012. Verkefnastjóri lyfjamála hjá landlæknisembættinu segir að hér sé lyfinu ávísað til barna í mun meira mæli en annars staðar á Norðurlöndum. Embættið hafi áhyggjur af þróun mála enda séu ekki til rannsóknir á langtímaáhrifum lyfsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×