Skoðun

Konur – Ísland allt

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
Í dag 24. október, höldum við upp á kvennafrídaginn, í gegnum tíðina hafa konur hvatt aðrar konur til þess að leggja niður störf á þessum degi. Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags fyrir þjóðfélagið. Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í annað sinn og konur gengu í tugþúsunda tali útaf vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín, klukkan 14:08. Árið 2010 var það klukkan 14:25. Fyrir einu ári síðan var lögð áhersla á að leggja niður störf klukkan 14.38.

En við getum ekki allar lagt niður störf samtímis. Margar konur  sinna mikilvægustu störfum samfélagsins Til að nefna  dæmi þá er ljóst að konur í umönnunarstörfum hafa enga möguleika til þess að ganga út og skilja eftir skjólstæðinga sína, hjúkrunarfræðingar geta ekki yfirgefið vinnustað sinn og heldur ekki sjúkraliðar eða aðrar konur í stéttum sem eru að mestu skipaðar konum.

Vinnumarkaðurinn er kynskiptur, leikskóla- og grunnskólakennarar eru svokallaðar hefðbundnar kvennastéttir í umræðunni. Tilraunir hafa verið gerðar til að taka á vandanum með sértækum leiðréttingum einstakra kvennastarfsstétta, s.s. hjá hjúkrunarfræðingum. Þær tilraunir hafa undantekningalítið orðið grunnur að almennum launakröfum á vinnumarkaði og hafa því litlum árangri skilað til kvenna því fjölmennar kvennastéttir fá greidd lægri laun en fjölmennar karlastéttir.

Í dag , enn á ný, er  kvennafrídagur runninn upp, en kynbundinn launamunur er enn fyrir hendi. Það er verkefni bæði kvenna sem karla að ýtreka að það sé óásættanleg staða og brjóta þarf upp kynskiptan vinnumarkað, það er verkefnið framundan. Konur geta ekki allar lagt niður störf sín í dag til þess að leggja áherslu á óréttlát kjör sín, við þurfum að muna eftir því.

Höfundur skipar 2. sæti Miðflokksins í NA-kjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×