Skoðun

Láttu lífeyrinn minn vera!

Guðrún Pétursdóttir skrifar
Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég las ummæli Sigmundar Davíðs um lífeyrissjóðina, sem hann lét falla á þingi Samtaka iðnaðarins 13. október 2017. Ég fæ ekki betur séð en hann geti ekki beðið eftir að komast í lífeyrissparnaðinn okkar. Þinn og minn.

Orðrétt er haft eftir honum: „Til dæm­is hjá líf­eyr­is­sjóðunum sem hafa haft það of þægi­legt með tryggðri 3,5% ávöxt­un. Ef ríkið væri ekki að halda þeim uppi þyrftu þeir að standa und­ir sér með öðrum hætti. Ég myndi vilja sjá sterk­ari hvata til þess að þetta fjár­magn nýt­ist í ný­sköp­un.“

Hafa lífeyrissjóðirnir það „of þægilegt“? Eru ekki áhyggjur okkar einmitt þær, að þeir muni eiga í erfiðleikum með að standa undir skuldbindingum? Það er sannarlega rík ástæða til að tryggja ávöxtun lífeyrissjóðanna og verja þá sjálfa. Þarna liggur lífeyrissparnaður þjóðarinnar, fjármagn sem tekið er af öllum launum fólks að viðbættu mótframlagi launagreiðenda, í þeim skýra tilgangi að tryggja framfærslu þegar starfsævinni lýkur. Víst er þetta mikið fé, enda skuldbindingarnar gríðarmiklar. Þeim mun ríkari ástæða er til að verja þessa fjármuni fyrir þeim sem ásælast þá. Fjárfestingar í nýsköpun eru of áhættumiklar til að leggja lífeyri landsmanna þar undir. Það fjármagn þarf að koma annars staðar frá. Að heyra þessi áform frambjóðandans ætti að hringja háværum viðvörunarbjöllum.

Það má aldrei gerast að þetta öryggisnet þjóðarinnar sé lagt undir í fjárhættuspili, með hvaða formerkjum sem er. Lífeyrissparnaður er ekki skattur – hann er eign. Burt með krumlurnar, Sigmundur! Snertu ekki lífeyrinn minn!

 

Höfundur er á lista Viðreisnar í Reykjavík norður.




Skoðun

Sjá meira


×