Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans, var gestur í Seinni bylgjunni á mánudagskvöldið en hann mun heimsækja þáttinn reglulega í vetur.
Dagur ræddi meðal annars stöðuna á besta handboltamanni Íslands í dag en Aron Pálmarsson er hvorki að æfa né spila með liði sínu Veszprém í Ungverjalandi á þessu tímabili og mikil óvissa er með framhaldið hjá þessum frábæra handboltamanni.
„Þetta er gríðarlega vond staða og hún getur farið í allar áttir eins og ég skil þetta rétt. Ég vona að þetta fari að leysast á næstu dögum og vikum,“ sagði Dagur en Tómas Þór Þórðarson gekk á Dag og spurði hann um hvort að hann hafi heyrt eitthvað.
„Ég hef bara heyrt að það séu einhverjar viðræður að fara í gang. Ég veit ekki hvort að það séu viðræður á milli Barcelona og Veszprém. Ég hef heyrt að það sé komið tilboð,“ sagði Dagur en væri Aron þá að fara til Barcelona í janúar?
„Nei hann kæmist bara strax til þeirra,“ sagði Dagur og bætti við: „Ég held að það sé alveg útilokað að hann fari aftur í Veszprém. Vranjes kom þarna sem nýr þjálfari og ég held að hann hafi ekkert haft með þetta að segja. Ég er svolítið vonsvikinn að hann hafi ekki staðið meira með Aroni í þessu,“ sagði Dagur. Hann er ekki nógu ánægður með sænska þjálfarann Ljubomir Vranjes.
„Það er erfitt ef þú kemur sem nýr þjálfari inn í félag og færð stjórnina strax á bakið. Þú þarft því eiginlega að taka þessa ákvörðun strax í byrjun og taka slaginn á móti besta leikmanninum. Ég er svolítið „skúffaður“ að hann skildi taka það,“ sagði Dagur.
Það er hægt að horfa á Dag og strákana í Seinni bylgjunni fara yfir stöðuna hjá Aroni Pálmarssyni í spilaranum hér fyrir ofan.
Það sem Dagur Sig veit um stöðu mála hjá Aroni Pálmarssyni
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mest lesið



Yngsti markaskorari efstu deildar: „Langaði í annað“
Íslenski boltinn







Kristian Nökkvi skoraði og lagði upp
Fótbolti
Fleiri fréttir
