May sagði í yfirlýsingu sinni að sjálfstæð stofnun sem hefur það hlutverk að greina hryðjuverkaógn hafi metið það sem svo að réttast væri að hækka viðbúnaðarstigið. „Mat þeirra [stofnunarinnar] bendir til þess að fleiri árásir gætu verið yfirvofandi,“ sagði May.
Hærra viðbúnaðarstig felur meðal annars í sér að hermenn eru gerðir sýnilegir á götum borgarinnar og vopnaburður lögreglu er að sama skapi aukinn.
„Almenningur kemur til með að sjá fleiri vopnaða lögregluþjóna, bæði á götum úti og nærri almenningssamgöngum,“ sagði May og bætti við að slíkt myndi fela í sér aukna vernd fyrir Lundúnarbúa meðan á rannsókninni stendur.
Sjá einnig: Umfangsmikil leit að hryðjuverkamanni.
29 eru særðir eftir árásina, sem gerð var í Parsons Green lestarstöðinni í Lundúnum. Enginn er í lífshættu. Sprengingin er rannsökuð sem hryðjuverk og leitar lögregla nú árásarmannsins. Lögreglan lýsti því yfir í kjölfar árásinnar að ólíklegt teldist að árásirnar yrðu fleiri en greining fyrrnefndrar stofnunar hefur nú leitt annað í ljós.
Yfirlýsingu May má sjá hér fyrir neðan.