Staða Breiðabliks í Pepsi-deild karla er ekki góð. Þegar tvær umferðir eru eftir eru Blikar í 7. sæti með 24 stig, fjórum stigum frá fallsæti. Breiðablik tapaði 4-3 fyrir Grindavík í gær en þetta var þriðja tap liðsins í röð.
Staðan Breiðabliks verður enn verri ef Víkingur Ó. vinnur Víking R. í síðasta leik 20. umferðar í dag.
Öfugt við síðustu tvö ár hefur varnarleikurinn verið helsti Akkilesarhæll Breiðabliks í sumar.
Blikar fengu á sig fjögur mörk í Grindavík í gær og hafa nú fengið á sig 33 mörk í 20 leikjum í Pepsi-deildinni.
Til samanburðar fékk Breiðablik á sig 33 mörk samtals 2015 og 2016, í 44 deildarleikjum.
Blikar fengu aðeins 13 mörk á sig 2015 og héldu 12 sinnum hreinu. Í fyrra fengu þeir 20 mörk á sig og héldu átta sinnum hreinu.
Breiðablik þurfti að bíða fram í 9. umferð eftir því halda hreinu í fyrsta sinn í ár. Blikar hafa aðeins þrisvar sinnum haldið hreinu í allt sumar.
Breiðablik á eftir að mæta ÍBV heima og FH úti í síðustu tveimur umferðunum í Pepsi-deildinni.
Varnarleikur Breiðabliks:
2015: 13 mörk fengin á sig, 12 sinnum haldið hreinu
2016: 20 mörk fengin á sig, 8 sinnum haldið hreinu
2017: 33 mörk fengin á sig, 3 sinnum haldið hreinu
