Erlent

Handtóku vígamenn sem undirbjuggu stórar árásir

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Melilla í Marokkó.
Frá Melilla í Marokkó. Vísir/AFP
Lögregluyfirvöld á Spáni og í Marokkó hafa handtekið sex menn grunaðir um að skipuleggja umfangsmiklar hryðjuverkaárásir. Einn maður var handtekinn í Melilla og fimm í Marokkó en Melilla er lítið spænskt yfirráðasvæði í Marokkó.

Samkvæmt heimildum AFP fréttaveitunnar hittust mennirnir á næturnar og æfðu sig, meðal annars í því að skera fólk á háls.

Einungis þrjár vikur eru frá því að hryðjuverkamenn, margir þeirra af marokkóskum uppruna, myrtu 16 manns í tveimur árásum á Spáni. Í þeim árásum notuðust árásarmennirnir við bíla og hnífa.

Leiðtogi hinna meintu hryðjuverkamanna er spænskur, en ættaður frá Marokkó. Hann bjó í Melilla og notaði stöðu sína sem aðstoðarkennari til að laða ungt og viðkvæmt fólk að málstað sínum. Ekki liggur fyrir hvaða hryðjuverkasamtökum mennirnir voru hluti af eða hvort þeir hafi verið meðlimir hryðjuverkasamtaka yfir höfuð.

Utanríkisráðuneyti Marokkó segir að aðferðir mannanna hafi verið í takt við Íslamska ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×