Hinn breski Gabe Olaseni var bestur allra í riðlakeppni Evrópumótsins í körfubolta. Alþjóðakörfuboltasambandið, FIBA, reiknar út framlag (e. efficiency) leikmanna í hverjum leik og var Olaseni með 26,8 að meðaltali í leik í riðlakeppninni.
Til samanburðar þá var Goran Dragic, leikmaður Miami Heat og slóvenska landsliðsins, næsthæstur með 24,2 í framlag að meðaltali í leik. Dragic var stigahæstur í riðlakeppninni, með 24,4 stig að meðaltali í leik.
Mikill munur er á liðum þessara tveggja, en Slóvenar eru enn taplausir í mótinu og þykja sigurstranglegir, á meðan Bretar unnu ekki leik. Bretar höfðu aldrei áður komist í lokakeppni Eurobasket, en eru þó í 22. sæti styrkleikalista FIBA.
Olaseni er 25 ára og 2,10 metrar að hæð. Hann spilar fyrir Orleans Loiret í Frakklandi. Hann spilaði að meðaltali 29,2 mínútur í leik í riðlakeppninni. Skotnýting hans var 70% utan af velli og 82,4% á vítalínunni. Olaseni skoraði úr 35 af 50 tveggjastiga skotum en hann tók ekki eitt einasta þriggja stiga skot í keppninni.
Framlagshæsti leikmaður Íslands í keppninni var Martin Hermannsson með 12,8 í framlag að meðaltali í leik. Hann var einnig með 12,8 stig að meðaltali í leik.
Breti bestur í riðlakeppninni

Tengdar fréttir

Martin: Mátti ekki anda á Markkanen
Martin Hermannsson skoraði 12 stig í tapinu fyrir Finnum í síðasta leik Íslendinga á EM í körfubolta.

Riðlakeppninni á EM lokið | Þessi lið mætast í 16-liða úrslitum
Riðlakeppninni á EM í körfubolta lauk í kvöld með tveimur leikjum.

Gasol orðinn stigahæstur í sögu EM
Pau Gasol er orðinn stigahæsti leikmaður í sögu Evrópumótsins í körfubolta.