Innlent

Ákærðir fyrir stórfellt MDMA-smygl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Annar mannanna kom til Íslands um borð í Norrænu.
Annar mannanna kom til Íslands um borð í Norrænu. vísir/gva
Tveir pólskir ríkisborgarar á fertugsaldri hafa verið ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnasmygl. RÚV greinir frá.

Mennirnir tveir voru handteknir á gistiheimili í Ölfusi í apríl. Þar fann lögreglan um þrjú kíló af MDMA.

Lögreglan fékk ábendingu að til stæði að flytja inn talsvert magn af sterkum fíkniefnum með Norrænu. Annar mannanna er sagður hafa keyrt frá Zoetermeer í Hollandi áleiðis til Danmerkur þar sem hann fór um borð í Norrænu.

Fíkniefnin voru falin í sérútbúnu geymsluhólfi í innréttingu á Opel Omega bíl.

Við komuna til landsins vaknaði fljótlega grunur hjá lögreglu og tollvörðum að ekki væri allt með felldu. Fékkst heimild hjá héraðsdómi til þess að koma fyrir búnaði til að fylgjast með för mannsins sem og upptökubúnaði.

Keyrði hann frá Seyðisfirði til Keflavíkur þar sem hinn maðurinn var að koma til Íslands með flugi frá Stokkhólmi.

Þaðan héldu þeir á gistiheimili í Ölfusi þar sem þeir voru sem fyrr segir handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×