Körfubolti

Logi: Mættur til að vinna leiki en ekki til að spila á móti einhverjum stórstjörnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Vísir/ÓskarÓ
Logi Gunnarsson og félagar í íslenska körfuboltalandsliðinu geta ekki beðið eftir því að mæta Grikkjum á morgun en þá spilar íslenska liðið sinn fyrsta leik á Eurobasket 2017.

„Við erum bara spenntir. Við erum vel undirbúnir að mínu mati og okkur hlakkar bara til. Við erum búnir að gera þetta áður þannig að þetta er aðeins öðruvísi tilfinning að vera að fara í fyrsta leik. Ég man fyrir fyrsta leik á móti Þjóðverjum fyrir tveimur árum þá var maður með rosalegan hnút í maganum allan daginn,“ segir Logi.

Hann er í stóru hlutverki í íslenska liðinu alveg eins og fyrir tveimur árum á EM í Berlín.

„Þetta er öðruvísi núna og meiri tilhlökkun. Auðvitað var maður rosalega spenntur fyrir hinu líka en þegar þú ert búinn að gera eitthvað einu sinni þá veistu út í hvað þú ert að fara,“ segir Logi.

Logi er nú að fara að mæta Grikkjum í fyrsta sinn á löngum landsliðsferli.

„Þetta er ein af þessum þjóðum sem ég hef ekki mætt á ferlinum. Ég hef aldrei spilað á móti Grikkjum á öllum þessum árum. Það eru algjör forréttindi að fá að spila við svona risa í evrópskum körfubolta eins og Grikkir eru. Það eru forréttindi að vera að fara taka þátt í svona leik á svona stóru sviði á móti Grikkjum. Við erum kokhraustir og förum í leikinn og trúum virkilega að við getum unnið þá,“ segir Logi.

Hann þekkir vel til leikmanna gríska liðsins. „Þetta eru strákar sem maður er búinn að fylgjast með í gegnum árin, annaðhvort í NBA-deildinni eða í Eurobasket áður en við komust þangað. Nú er maður að mæta þeim og við erum rosalega spenntir og tilbúnir í þetta,“ segir Logi.

Logi fagnar því samt að þurfa ekki að glíma við „The Greek Freak", Giannis Antetokounmpo, í þessum leik. Giannis fékk ekki leyfi frá NBA-liðinu Milwaukee Bucks til að taka þátt í Evrópumótinu í ár.

„Það bara eykur líkurnar að við getum unnið leikinn. Það er ekkert flóknara. Ég er ekkert hérna til að spila á móti einhverjum stórstjörnum því maður er mættur hingað til þess að vinna leiki. Ég var mjög sáttur að heyra það að hann væri ekki með,“ sagði Logi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×