Erlent

Íslendingur í Barselóna lagði sig í staðinn fyrir að fara á Römbluna í dag

Hulda Hólmkelsdóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Kristbjörg hafði ráðgert að vera á því svæði sem hryðjuverk voru framin í dag.
Kristbjörg hafði ráðgert að vera á því svæði sem hryðjuverk voru framin í dag. Kristbjörg Óskarsdóttir
Kristbjörg Óskarsdóttir ætlaði sér að vera á Römblunni í Barselóna um þrjúleytið í dag en ákvað þess í stað að fá sér blund. Þegar hún vaknaði varð henni ljóst að hryðjuverkaárás hefði verið framin.

Kristbjörg starfar í Barselóna og býr í tíu mínútna göngufæri við Römbluna. Hún segist heyra greinilega í sírenuvælinu frá vettvangi. Spurð að því hvort hún hafi óttast árás segir Kristbjörg

„Það eru svo mikið af hryðjuverkum alls staðar í Evrópu og í heiminum. Barcelona er svo stór borg þannig að maður hugsaði „hvenær gerist það hér?“

Kristbjörg segist líka hafa hugsað sig tvisvar um þegar um stórhátíðir eru að ræða. „maður myndi eiginlega bara sleppa því að fara út af hættu,“ segir Kristbjörg.

Þegar Kristbjörg flutti fyrst til Barselóna bjó hún um hríð hjá spænskri fjölskyldu. Þau hafi sagt henni að mikil gæsla væri um alla borg. „Það eru óeinkennisklæddir og einkennisklæddar löggur úti um alla borg, alltaf. Maður tekur alveg eftir því þannig að það er passað rosalega upp á þetta.“

Kristbjörg hafði í fyrstu ráðgert að fara á Plaça de Catalunya í dag, nærri Römblunni um þrjúleytið í dag. Hún ætlaði að taka myndir fyrir blogg sem hún heldur úti en hún var á staðnum í gær um þetta leyti. Hún segist fegin að hafa orðið þreytt því hún lagði sig í stað þess að halda út að Römblunni.

Plaça de Catalunya er stórt torg en út frá því kemur Ramblan sem er aðalverslunargatan í Barselóna og einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í borginni. Gatan er um 1,2 kílómetrar að lengd – frá Placa de Catalunya og að minnisvarðanum um Kristófer Kólumbus við sjávarsíðuna. Yfirvöld í Barselóna hafa á síðustu árum takmarkað bílaumferð vegna mikils fjölda gangandi vegfarenda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×