Erlent

Lögreglan og utanríkisráðuneytið þvertaka fyrir að Julian sé fundinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Katalónska lögreglan segist ekki hafa fundið dreng sem lýst var eftir á samfélagsmiðlum í gær.
Katalónska lögreglan segist ekki hafa fundið dreng sem lýst var eftir á samfélagsmiðlum í gær. Vísir/Getty
Fréttir, sem birtustu í spænsku miðlunum El Pais og Mundo, þess efnis að drengurinn Julian Cadman sé fundinn eru ekki á rökum reistar að sögn katalónsku lögreglunnar.

Talsmaður bresku utanríkisþjónustu staðfestir í samtali við fjölmiðla ytra að hans sé enn leitað. „Við erum á sama stað og í gær. Við leitum enn að einum með tvöfalt ríkisfang“ er haft eftir talsmanninum í Evening Standard. Vísar hann þar til Julians, sem er hálfur Bretur og hálfur Ástrali.

Greint var frá því að búið væri að finna hinn sjö ára Cadman eftir mikla leit síðastliðinn sólarhring. Lögreglan í Katalóníu segir hins vegar ekkert hæft í þeim fréttum. Ekkert barn hafi fundist og engin formleg leit hafi staðið yfir.

Í yfirlýsingu sem lögreglan sendi frá sér í morgun segir: „Við erum hvorki að leita, né höfum við fundið barn sem talið er að hafa týnst eftir árásina í Barselóna. Öll fórnarlömb árásarinnar eru fundin,“ segir í yfirlýsingunni.

Lögreglan bætir við að fjölskyldur fórnarlambanna séu í forgangi þegar kemur að upplýsingagjöf um líðan þeirra sem slösuðust í árásinni á fimmtudag.

Fjölskyldumeðlimir drengsins dreifðu myndum af honum á samfélagsmiðlum og óskuðu eftir aðstoð almennings við að hafa uppi á honum eftir að ekkert hafði til hans spurst eftir árásina. Móðir Julians er enn talin vera í hópin hinna slösuðu. Andrew Cadman, faðir drengsins, flaug til borgarinnar í gær til að aðstoða við leitina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×