Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi lofað sér að Bandaríkin muni beita öllum tiltækum ráðum til að að vernda bandamenn Bandaríkjamanna í Asíu fyrir hinni vaxandi hernaðarógn sem stafi frá Norður-Kóreu.
Þetta kom fram í máli leiðtoganna sem ræddu saman í síma um helgina.
Norður-Kóreumenn gerðu enn eina eldflaugatilraunina á föstudag og á sunnudag sýndu Bandaríkjamenn styrk sinn á móti með því að fljúga tveimur sprengjuþotum yfir Kóreuskagann, en þoturnar geta borið kjarnavopn.
Yfirmaður bandaríska heraflans á Kyrrahafi sagði við það tilefni að Bandaríkjamenn væru tilbúnir til að gera árás á Norður-Kóreu hvenær sem er og beita til þess sínum hernaðarlegu yfirburðum.

