Yfirvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu tilkynntu í júlí í fyrra að til stæði að koma slíku kerfi fyrir til að verjast gegn mögulegum eldflaugaárásum Norður-Kóreu. Yfirlýst markmið stjórnvalda Kim Jong-un er að þróa kjarnorkuvopn sem hægt væri að skjóta að meginlandi Bandaríkjanna.

Moon tilkynnti einnig í dag að hann vilji að Sameinuðu þjóðirnar herði enn fremur refsiaðgerðir sínar gegn Norður-Kóreu og tilrauna þeirra.
Eldflaugaskot Norður-Kóreu í dag var í annað sinn sem þeir skjóta langdrægri eldflaug á loft. Sérfræðingar sem AP fréttaveitan ræddi við segja að niðurstöður tilraunarinnar gefi í skyn að þeir gætu skotið á stóran hluta Bandaríkjanna.
Bandarísk hernaðaryfirvöld luku á dögunum greiningu á getu Norður-Kóreu. Niðurstaðan var sú að framþróun þeirra væri hraðari en áður hefur verið talið og að Norður-Kórea gæti mögulega skotið áreiðanlegum og langdrægum eldflaugum vopnuðum kjarnorkuvopnum á næsta ári.