Íslenski boltinn

Heimir: Við erum í eltingarleik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heimir Guðjónsson þjálfari FH og Ólafur Páll Snorrason aðstoðarþjálfari fylgjast með frá varamannabekknum í kvöld.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH og Ólafur Páll Snorrason aðstoðarþjálfari fylgjast með frá varamannabekknum í kvöld. vísir/ernir
Heimir Guðjónsson þjálfari FH fagnaði vel í leikslok eftir mikilvægan sigur á Breiðablik í Pepsi-deildinni í kvöld.

„Þetta var mikilvægur sigur, við erum náttúrulega í eltingarleik og hvert stig skiptir máli. Það var flott að koma hérna og vinna gríðarlega sterkt lið Breiðabliks sem spilaði að mínu mati vel í þessum leik. Það er sterkt að koma á þennan völl og taka þrjú stig,“ sagði Heimir í samtali við Vísi strax eftir leik á Kópavogsvelli í kvöld.

FH komst yfir í fyrri hálfleik og hefði vel getað skorað fleiri mörk fyrir hlé en Gunnleifur Gunnleifsson kom í veg fyrir það með góðri markvörslu.

„Mér fannst við mjög öflugir fyrsta hálftímann og fengum góð færi til að koma inn fleiri mörkum. Það náðist ekki og 1-0 er alltaf erfið forysta því það þarf ekki mikið að gerast í þeirri stöðu. Við komum ekki nógu sterkir út í seinni hálfleik, féllum alltof langt til baka og miðjan var komin inn í vörnina.“

„Gísli (Eyjólfsson) er frábær skotmaður og hann fékk tækifæri á góðu skoti sem hann kláraði vel. En við sýndum karakter að svara og koma til baka,“ bætti Heimir við en annað mark FH kom aðeins fjórum mínútum eftir að Blikar höfðu jafnað.

FH spilar næst á föstudaginn og getur með sigri í þeim leik tekið toppsætið um stundarsakir þar sem aðrir leikir í umferðinni fara fram á sunnudag og mánudag.

„Það er bara næsti leikur gegn Víkingi Ólafsvík. Þeir eru með flott lið og Ejub hefur gert frábæra hluti. Það verður bara erfiður leikur, við fögnum í kvöld og byrjum svo að einbeita okkur að þeim leik á morgun,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×