Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, á ekki von á uppsagnarbréfi frá knattspyrnudeild félagsins þrátt fyrir dapran árangur í fyrstu sjö umferðum Pepsi-deildarinnar. Liðið tapaði í gær, 3-1, fyrir ÍBV á útivelli.
Þetta kemur fram í viðtali við Kristinn Kjærnested, formann knattspyrnudeildar KR, á 433.is þar sem hann er spurður út í stöðu þjálfarans eftir þessa skelfilegu byrjun.
Willum kom eins og stormsveipur aftur inn í Pepsi-deildina á síðustu leiktíð og reif KR úr kjallaranum alla leið upp í Evrópusæti. Nú er liðið með sjö stig í tíunda sæti eftir sjö umferðir, tveimur stigum minna en á sama tíma í fyrra.
„Staða Willums er örugg. Við vonum að hann og leikmennirnir fyrst fremst fari að snúa þessu við. Staðan er óásættanleg eins og hún er í dag,“ segir Kristinn við 433.is.
KR mætir næst Breiðabliki í stórleik í 8. umferð Pepsi-deildarinnar á mánudaginn en verður Willum í vandræðum ef KR tapar þar? „Betur má ef duga skal. Látum það vera lokaorð,“ segir Kristinn Kjærnested.
Bjarni Guðjónsson var rekinn sem þjálfari KR í fyrra í níundu umferð en hann var þá búinn að tapa þremur leikjum í röð. Willum er með færri stig en Bjarni á sama tíma í fyrra og er búinn að tapa tveimur leikjum í röð.
Formaðurinn segir stöðu KR óásættanlega en Willum heldur starfinu

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - KR 3-1 | Góður sigur Eyjamanna en KR-ingar í vondum málum
ÍBV vann góðan 3-1 sigur á KR þegar liðin mættust á Hásteinsvelli í kvöld.