Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu, KCNA, hefur staðfest að tilraunaskot á miðdrægri eldflaug hafi tekist eins og áætlað var. Eldflauginni var skotið á loft fyrr í dag.
Samkvæmt ríkisfréttastofunni er flaugin tilbúin til notkunar í hernaðaraðgerðum. Bandarísk yfirvöld segja þó drægi eldflaugarinnar ekki jafnast á við drægi síðustu flauga sem Norður-Kórea hefur skotið á loft. Í dag er vika síðan ríkisfréttastofa Norður-Kóreu staðfesti síðasta tilraunaskot yfirvalda en þá kom fram í yfirlýsingu að þar hefði verið um að ræða nýja eldflaug, á hverri hægt væri að koma fyrir kjarnaoddi.
Öryggisráð sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað fordæmt þessar tilraunir Norður-Kóreu og mun funda á þriðjudag um eldflaugina sem skotið var á loft í dag.
Eins og áður hafði leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, yfirumsjón með tilraunaskotinu í dag. Hann er sagður hafa „samþykkt nýtingu á vopnakerfinu til aðgerða.“
Eldflaugin, sem talin er vera af gerðinni Pukguksong-2, flaug rúmlega 500 kílómetra. Henni var skotið á loft nærri Pukchang í dag en þar misheppnaðist tilraunaskot í síðasta mánuði.
Þetta er áttunda tilraunaskot Norður-Kóreu á þessu ári. Undanfarnar vikur hafa yfirvöld hótað því að sprengja kjarnorkusprengju í tilraunaskyni en það hefur lengi verið yfirlýst markmið Norður-Kóreu.
Yfirvöld Norður-Kóreu segja tilraunaskotið hafa heppnast vel

Tengdar fréttir

Norður-Kórea skaut nýrri eldflaug á loft
Yfirvöld Norður-Kóreu skutu eldflaug á loft í dag í grennd við Kusong, norðvestan við höfuðborg landsins, Pyongyang. Flaugin er talin hafa flogið 700 km og hafnað í Japanshafi.

THAAD-kerfið greindi eldflaug Norður-Kóreu
Varnarmálaráðherra Suður-Kóreu segir framþróun nágranna sinna vera hraðari en þeir reiknuðu með.


Enn eitt tilraunaskot Norður-Kóreu
Her Suður-Kóreu segir nágranna sína hafa skotið ótilgreindri gerð eldflauga á loft, sem flaug í um 500 kílómetra.

Yfirvöld Norður-Kóreu segja flugskeytið lið í þróun á kjarnorkuvopnum
Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu (KCNA) hefur greint frá því að prófun á langdrægri eldflaug hafi heppnast. Þá er leiðtogi landsins, Kim Jong-un, sagður hafa haft yfirumsjón með tilrauninni. Yfirvöld Norður-Kóreu segja flaugar sínar ná til Bandaríkjanna.