Innlent

Smálánafyrirtæki þurfa ekki leyfi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Smálánafyrirtæki auglýsa enn rafbókalán þrátt fyrir aðfinnslur Neytendastofu.
Smálánafyrirtæki auglýsa enn rafbókalán þrátt fyrir aðfinnslur Neytendastofu. Vísir/AP
Starfsemi smálánafyrirtækja er hvorki skráningar- né starfsleyfisskyld og því erfiðara um vik að hafa eftirlit og stjórn á starfseminni. Forstjóri Neytendastofu bendir á að í mörgum öðrum löndum sé starfsemin leyfisskyld og segir æskilegt að taka umræðuna upp hér á landi.

Undanfarna daga hefur fréttastofa fjallað um SMS-skilaboð sem smálánafyrirtæki senda neytendum þar sem þeim býðst að taka smálán. Á heimasíðum smálánafyrirtækja er boðið upp á smálán með þeim skilyrðum að kaupa rafbók. Á síðasta ári tók Neytendastofa hins vegar ákvörðun um að slíkt væri ólöglegt þar sem rafbókakaupin þóttu greinilegur staðgengill lánakostnaðar - sem var dæmdur allt of hár.

Erfitt fyrir Neytendastofu að framfylgja úrskurðinum

Þetta virðist ekki hafa stoppað smálánafyrirtækin og enn eru rafbókalán auglýst. Neytendastofa þarf nú að fylgja eftir úrskurðinum, óska eftir upplýsingum frá fyrirtækjunum og athuga hvort farið hafi verið eftir ákvæðinu. Ef það hefur ekki verið gert er eina úrræði Neytendastofu að beita sektum.

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, segir að ef starfsemi smálánafyrirtækja yrði gerð skráningar- og leyfisskyld væri hægt að hafa mun meira og betra aðhald með starfseminni. Í dag þurfa smálánafyrirtæki engin leyfi.

„Nei, ekki til að setja á fót svona fyrirtæki og þau eru ekki skráningarskyld sem fjármálafyrirtæki eða leyfisskyld. Til þess að gera það þarf að breyta lögum,“ segir Tryggvi og bendir á að með því að gera starfsemina leyfisskylda gæti ekki hver sem er stofnað smálánafyrirtæki.

„Nei þá yrðu væntanlega sett nánari skilyrði um hæfi og fleira hjá þeim sem fara með þessi fyrirtæki. Ef það yrðu svo ítrekuð brot væri hægt að svipta aðila leyfi og banna starfsemina.“

Tryggvi segir að upp hafi komið umræða um að gera starfsemina leyfisskylda. 

„Ég held á einhverju stigi hafi verið bent á það. Held það sé gert að einhverju leyti í öðrum löndum og væri æskilegt að taka þá umræðu.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×