Yfirvöld í Brasilíu hafa aflétt neyðarástandi vegna Zika-veirunnar sem geisaði þar í landi og víðar á síðasta ári. Tilfellum hefur fækkað um allt að 95 prósent á þessu ári borið saman við sama tímabil í fyrra.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti yfir neyðarástandi í Suður- og Mið-Ameríku í febrúar í fyrra, en aflétti því í nóvember síðastliðnum. Veiran hefur gert vart við sig í yfir þrjátíu löndum en náði hvað mestri útbreiðslu í Brasilíu.
Zika-veiran er talin valda alvarlegum fósturskaða þannig að börn fæðist með svokallað dverghöfuð. Hún berst með moskítóflugum en er ekki talin banvæn. Einn af hverjum fimm sem sýkjast fá einkenni á borð við hita, útbrot og liðverki.
