Íslenski boltinn

Arnar rekinn á nýju Íslandsmeti

Óskar Ófeigur Jónsson og Tómas Þór Þórðarson skrifa
Arnar Grétarsson entist aðeins í tvær umferðir í sumar.
Arnar Grétarsson entist aðeins í tvær umferðir í sumar. vísir/stefán
Eins og kom fram fyrr í dag var Arnar Grétarsson látinn taka pokann sinn sem þjálfari Breiðabliks í Pepsi-deild karla. Hann stýrði liðinu aðeins í tveimur leikjum á þessari leiktíð.

Þetta er nýtt Íslandsmet í snemmbúnum brottrekstri þjálfara í efstu deild karla ef litið er til síðustu 40 ára eða frá stofnun tíu liða deildar árið 1977.

Aðeins einn þjálfari á þessum 40 árum hefur verið rekinn eftir tvo leiki líkt og Arnar núna en það var Martinn Geirsson sem var rekinn frá Fram eftir tvær umferðir í Sjóvá Almennra-deildinni árið 1995.

Fram var þá búið að gera eitt jafntefli og tapa einum leik en Blikarnir hans Arnars eru án stiga eftir tvö töp í fyrstu tveimur umferðum Pepsi-deildarinnar.

Enginn hefur þó verið rekinn eða hætt fyrr en Arnar Grétarsson þar sem Íslandsmótið hefst nú svo snemma. Arnar var rekinn í dag, níunda maí, en Martinn var látinn taka pokann sinn 29. maí eftir tvo leiki árið 1995.

Næst fyrstur til að vera látinn fara ef litið er á dagsetningu en ekki umferð í deildinni er Lúkas Kostic sem var rekinn frá Grindavík 26. maí árið 2010. Arnar tók það met af Lúkasi í dag og jafnaði 22 ára gamalt met Marteins yfir að vera rekinn í annarri umferð.

Arnar Grétarsson var búinn að tapa síðustu fjórum leikjum sem þjálfari Breiðabliks, tveimur síðustu í fyrra og tveimur fyrstu í sumar. Liðið skoraði eitt mark í þessum fjórum leikjum og fékk á sig átta.

Blikaliðið vann aðeins tvo af síðustu níu heimaleikjum sínum undir stjórn Arnars, innbyrtu aðeins níu stig af 27 mögulegum og skoruðu ekki í fjórum þessara heimaleikja.

Hér að neðan má sjá fljótustu þjálfarabreytingar í efstu deild frá 1977 en ekki allir voru reknir. Mila Stefán Jankovic hætti til dæmis sjálfur hjá Grindavík árið 2009.

Arnar Grétarsson, Breiðablik 2017

2 leikir (2 töp)

Marteinn Geirsson, Fram 1995

2 leikir (1 jafntefli, 1 tap)

Milan Stefán Jankovic, Grindavík 2009

3 leikir (3 töp)

Kristinn Björnsson, Valur 1999

4 leikir (2 jafntefli, 2 töp)

Ingi Björn Albertsson, Keflavík 1995

4 leikir (2 sigrar, 1 jafntefli, 1 tap - Var í 3. sæti)

Kristinn R. Jónsson, Fram 2003

4 leikir (2 jafntefli, 2 töp)

Lúkas Kostic, Grindavík 2010

4 leikir (4 töp)

Lúkas Kostic. KR 1997

5 leikir (1 sigur, 3 jafntefli, 1 tap)

Þorvaldur Örlygsson, Fram 2013

5 leikir (1 sigur, 2 jafntefli, 2 töp)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×