Körfubolti

Þrenna númer 42 hjá Russell Westbrook og Oscar á ekki lengur metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook fagnar sigurkörfu sinni og metinu í nótt.
Russell Westbrook fagnar sigurkörfu sinni og metinu í nótt. Vísir/AP
Russell Westbrook skrifaði NBA-söguna í nótt þegar hann náði sinni 42. þrennu á tímabilinu. Með því sló hann 55 ára met Oscar Robertson. Sögulegt tímabil varð því enn sögulegra hjá Westbrook.

Russell Westbrook gerði gott betur því hann skoraði flautukörfu sem tryggði Oklahoma City Thunder 106-105 sigur og þriggja stiga karfan sá til þess að hann skorað 50 stig í leiknum.

Russell Westbrook hafði gulltryggt það í leiknum á undan að vera með þrennu að meðaltali á tímabilinu en því hafði aðeins einn maður náð í sögu NBA - Oscar Robertson tímabilið 1961-62.

Westbrook bætti met Oscar Robertson frá sama tímabili sem náði þá 41 þrennu. Westbrook var með 50 stig, 16 fráköst og 10 stoðsendingar á móti Denver Nuggets en þetta er í þriðja sinn sem hann nær að skora 50 stig ofan á þrennu.



Metið féll þegar gaf sína tíundu stoðsendingu á  Semaj Christon sem setti niður þriggja stiga skot í fjórða leikhluta. Allir áhorfendur voru með á nótunum og voru að bíða eftir stoðsendingu númer tíu.

Domantas Sabonis hafði klikkað á tveimur skotum eftir sendingar frá Westbrook en Christon varð á engin mistök og setti skotið niður sem færði Russell metið.



Oklahoma City Thunder var þá tíu stigum undir, 91-101, en um leið og tíunda stoðsendingar var í höfn þá snéri Russell Westbrook sér þá að því að skora.

Westbrook skoraði fimmtán stig á síðustu fjórum mínútunum og tryggði sínu liði sigurinn. Síðustu 2:30 í leiknum skoraði Russell 13 stig en allt Denver Nuggets liðið aðeins 2 stig.



42. þrenna Russell Westbrook á tímabilinu var líka hans 79. þrenna á ferlinum og komst hann þar með upp fyrir Wilt Chamberlain (78 þrennur) og í fjórða sætið. Aðeins Oscar Robertson (181), Magic Johnson (138) og Jason Kidd (107) hafa nú náð fleiri þrennum í NBA-deildinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×