Tími göngugatna í miðborg Reykjavíkur hefst þann 1. maí næstkomandi en í tilkynningu frá borginni segir að göngugötunum sé ætlað „að auðga mannlíf miðborgarinnar og bæta aðgengi gangandi og hjólandi fólks að verslun og þjónustu.“
Eftirfarandi götur verða göngugötur frá 1. maí til 1. október:
• Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis
• Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstræti.
• Laugavegur og Bankastræti, frá Vatnsstíg að Þingholtsstræti
• Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.
Göturnar verða opnar fyrir bílaumferð milli klukkan 7 og 11 á virkum dögum en bifreiðastöður verða óheimilar á öðrum tímum eins og verið hefur.
„Bekkjum, blómakerum og öðrum götugögnum verður komið fyrir á svæðinu til að gleðja augað og lífga upp á mannlífið. Laugavegur verður málaður á kafla eins og síðustu ár og unnið að ýmsum sumarverkefnum á göngugötusvæðinu.
Til þess að göngugöturnar heppnist sem best er samstarf rekstraraðila og borgarinnar mikilvægt. Lífleg miðborg með auknum fjölda gesta er mikið gleðiefni en því fylgir aukið álag á hreinsun og viðhald. Rekstraraðilar eru því beðnir um að leggja borginni lið við að halda umhverfinu snyrtilegu í kringum starfsemi sína, sér í lagi veitingastaðir og kaffihús,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Þessar götur verða göngugötur í Reykjavík í sumar
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
