Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segir að Ísland hafi spilað einn besta varnarleikinn á HM í Frakklandi í janúar.
Í tilefni af 60 ára afmæli HSÍ efndi Handknattleikssambandið í samstarfi við Arion banka til fjölmiðlafundar þar sem Geir Sveinsson kynnti m.a. niðurstöður greiningar sinnar á frammistöðu Íslands á HM í Frakklandi.
„Frá því keppni lauk hef sérstaklega skoðað tölfræðiþáttinn varðandi leik okkar. Það er áhugavert að bera það saman við þessi bestu lið. Við erum ekki þar í dag en stefnan er að koma okkur aftur þangað,“ sagði Geir í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Það sem vantaði helst upp á hjá okkur var að við vorum með of mörg tæknifeila. Við þurfum að fækka þeim, þótt það væri ekki nema um að meðaltali tvo í leik. Auk þess var skotnýting okkar ekki nógu góð. Þessir tveir þættir gera það að verkum að við náum ekki upp í topp átta, plús að við þurfum að vera með tveimur fleiri varða bolta að meðaltali í leik.“
Fyrir utan þessa þrjá þætti fannst Geir margt mjög jákvætt í leik Íslands á HM.
„Við spiluðum eina bestu vörnina í keppninni og vorum sömuleiðis með ein bestu hraðaupphlaupin. Við vorum í 3. sæti af 24 liðum í þeim þætti og fáum einu fæstu skotin á markið á okkur af öllum liðunum. Við erum líka í 3. sæti þar,“ sagði Geir.
Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
