Vitni segja vígamennina hafa skotið á alla sem urðu á vegi þeirra.
Þeir héldu sjúkrahúsinu í um sex klukkustundir, en hópur sérsveitarmanna var fluttur með þyrlu á þak þess og felldu þeir árásarmennina fjóra. Þá höfðu miklir bardagar staðið yfir í og við sjúkrahúsið.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af sérsveitarmönnunum lenda á þakinu. Þar má einnig sjá hvernig fólk falldi sig á syllum fyrir utan glugga á sjúkrahúsinu.
„Í öllum trúarbrögðum eru sjúkrahús talin vera griðarstaðir og að ráðast á slíkt er að ráðast á allt Afganistan.“
Fréttaveita ISIS hefur birt myndir og myndskeið sem vígamennirnir tóku inn í sjúkrahúsinu og þar fyrir utan. Talibanar í Afganistan segjast ekki hafa komið að árásinni á nokkurn hátt.
Una Sighvatsdóttir, fréttakona Stöðvar 2, er í Kabul á vegum Atlantshafsbandalagsins. Hún hafði nýverið heimsótt sjúkrahúsið og rætt við unga kvenlækna sem vinna þar. Hún segist ekkert vita enn um afdrif læknanna sem hún ræddi við.

„Í dag var gerð árás á hersjúkrahúsið í Kabúl, sem ég heimsótti í síðustu viku til að hitta unga kvenlækna. Viðtalið mitt við dr. Sonia Baha birtist í morgun í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna og má sjá hér að neðan. Stuttu síðar réðst hópur manna með alvæpni og sprengjuvesti inn á sjúkrahúsið, klæddir í læknasloppa. ISIS lýsir yfir ábyrgð. Nýjustu fregnir herma að 30 séu látnir og 50 særðir.
Ég veit ekki ennþá um afdrif Soniu eða hinna læknanna sem ég hitti. Vona það besta á meðan fregnir skýrast og hvet ykkur til að horfa á viðtalið við þessa hugrökku ungu konu,“ segir Una.
Með færslunni birti hún viðtalið við dr. Sonia Baha sem sjá má hér að neðan.