Rúður voru brotnar í mótmælunum og minnst einn eldur var kveiktur en samkvæmt AP fréttaveitunni hefur smáum hópi grímuklæddra mótmælenda verið kennt um það. Enginn hefur verið handtekinn og enginn er slasaður.
Áður en til láta kom hafði stór hópur friðsamra mótmælenda staðið fyrir utan ráðstefnusalinn þar sem Yiannopoulos átti að flytja ræðu í nokkra klukkutíma.
Yiannopoulos er sjálfyfirlýst net-tröll og hann hefur lengi verið gagnrýndur fyrir rasisma, kvennhatur, þjóðernishyggju og hatur á múslimum. Þá var hann rekinn af Twitter fyrir að leiða og ýta undir áreiti í garð leikkonunnar og grínistans Leslie Jones.
Þá er Yiannopoulos yfirlýstur stuðningsmaður Donald Trump. Forsetinn tjáði sig um málið á Twitter nú í dag.
Þar segir hann að ef Berkeley leyfi ekki málfrelsi og styðji við „ofbeldi gegn saklausu fólki“ sé spurning um að koma í veg fyrir að skólinn fái opinbert fé.
If U.C. Berkeley does not allow free speech and practices violence on innocent people with a different point of view - NO FEDERAL FUNDS?
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) February 2, 2017
Nemendasamtök repúblikana segja að „glæpamenn og hrottar“ hafi brotið á stjórnarskrárvörðum rétti sínum til málfrelsis.