„Við hjónin vorum að ræða um bækur við vinahjón okkar, Valgerði Rún Benediktsdóttur og Unnar Óla Þórsson, og komumst að því að við lesum alltaf bækur frá sömu löndunum. Ég les mikið af enskum glæpasögum en vinkona mín ævintýrabækur. Hættan er sú að maður festist í sama farinu. Til að víkka sjóndeildarhringinn og læra meira um heiminn í leiðinni settum við okkur það markmið að lesa eina bók frá hverju landi í heiminum. Við erum þegar búin að skrá niður hvaða lönd við erum búin með og þetta er mjög gaman enn sem komið er,“ segir Hildigunnur.
Óhætt er að segja að óvenjulegar bækur rati á heimilið þessa dagana og margar sem þeim hefði annars aldrei dottið í hug að líta í. „Maðurinn minn, Einar Snorri Einarsson, er núna að lesa epísk, grísk ljóð en ég sjálfsævisögu Luis Suárez, sem er fótboltamaður frá Úrúgvæ. Sú bók er ekki alveg dæmigerð fyrir það sem ég les vanalega,“ segir hún kankvís.

Netið hefur komið sér vel við bókaleit en Hildigunnur hefur einnig farið á nytjamarkaði í von um að finna áhugaverðar bækur. „Ég skoða allar bækur eftir höfunda sem bera framandleg nöfn og leita síðan að upplýsingum um þá á netinu. Við settum þá reglu að höfundurinn þurfi að vera fæddur í landinu og helst að foreldrarnir séu frá því landi svo að það sé ekki tilviljun að viðkomandi fæðist í því landi, til dæmis vegna herskyldu föður,“ segir Hildigunnur og bætir við að það sé dálítil vinna að finna út hvort höfundur uppfylli þessi skilyrði og eins sé erfitt að finna bækur frá sumum ríkjum Afríku, sem og eyjum í Karíbahafi og Kyrrahafi.
„Skemmtilegast er ef við náum að lesa sína bókina hvort frá sama landinu. Við erum með sameiginlegt skjal þar sem við skráum hvernig okkur líkaði bókin og hvort við mælum með að hinir lesi hana. Við lesum um 50 bækur á ári og löndin eru 196 svo þetta er langtímaverkefni,“ segir Hildigunnur. Þegar hún er spurð hvort hún eigi sér uppáhaldsrithöfund svarar hún: „Í augnablikinu eru það Peter James og Linwood Barclay sem báðir skrifa spennusögur. Af íslenskum höfundum er ég hrifnust af Auði Haralds. Hún er klassísk.“