Viðskipti innlent

Hringbraut rekin með 65 milljóna tapi: „Reksturinn hefur verið erfiður“

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sölvi Tryggvason og Linda Blöndal, þáttastjórnendur á Hringbraut.
Sölvi Tryggvason og Linda Blöndal, þáttastjórnendur á Hringbraut. Hringbraut
Fjölmiðlafyrirtækið Hringbraut, sem rekur samnefnda sjónvarpsstöð, vefsíðu og útvarpsstöð, var rekið með 65,5 milljóna króna tapi á fyrsta rekstrarári þess eða 2015. Guðmundur Örn Jóhannsson, stjórnarformaður fjölmiðilsins og stærsti hluthafi, segir reksturinn erfiðan og að fyrirtækið hafi einnig verið rekið með tapi í fyrra.

„Reksturinn hefur verið erfiður en við höfum náð að laga það aðeins til. Við höfum lækkað kostnað og aðlagað okkur að erfiðara umhverfi en við finnum fyrir því að það er erfiðara að ná í auglýsingatekjur en var. Við höfum breytt fyrirtækinu þannig að við erum núna meira í framleðslu á efni og nýtum okkar tæki og tól í það,“ segir Guðmundur og heldur áfram:

„Við sjáum fyrir okkur að sækja um styrki til framleiðslu á sjónvarpsefni líkt og framleiðslufyrirtækin og fleiri hafa gert. Við ætlum að halda áfram en ef það birtir ekki til á árinu 2017 þá endurmetum við stöðuna.“

Samkvæmt ársreikningi Hringbrautar – miðlunar ehf. fyrir 2015 námu heildareignir fjölmiðilsins 15,3 milljónum króna í lok ársins og skuldirnar 80,7 milljónum. Eigið féð var því neikvætt um 65,4 milljónir.

Hringbraut fór í loftið í febrúar 2015 og er einkarekið fjölmiðlafyrirtæki. Í árslok 2015 var allt hlutafé fjölmiðilsins í eigu Guðmundar. Síðan þá hafa Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri og þáttastjórnandi á Hringbraut, og fjárfestirinn Jón von Tetzhner, bæst í eigendahópinn. Að sögn Guðmundar eru þau bæði minnihlutaeigendur en upplýsingar um eignarhald á fjölmiðlinum hafa ekki verið uppfærðar á vef Fjölmiðlanefndar.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×