Maður, sem handtekinn var í Þýskalandi í gær í tengslum við hryðjuverkaárásina í Berlín, hefur verið látinn laus.
Maðurinn sem var í haldi er fertugur Túnisi. Rannsóknarlögreglan í Þýskalandi hafði fundið símanúmer hans vistað í síma árásarmannsins, Anis Amri.
Talsmaður þýsku lögreglunnar hefur upplýst fjölmiðla um að rannsókn hafi leitt í ljós að maðurinn sé líkast til ekki sá tengiliður árásarmannsins sem lögregla telur að hugsanlega hafi átt aðild að ódæðisverkinu.
Árásarmaðurinn, sem keyrði flutningabifreið inn í jólamarkað í Berlín þann 19. desember síðastliðinn, var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó nokkrum dögum eftir árásina.
